Bílasala hérlendis virðist heldur vera að rétta úr kútnum og er það vel, ekki síst með tilliti til þess að bílafloti landsmanna er orðinn býsna gamall.
Til marks um vænkandi hag fyrirtækja á vettvangi bílasölu er að á dögunum afhenti bílaumboðið B&L eittþúsundasta nýja bílinn á árinu. „Við erum að vonum glöð með árangurinn þessa fyrstu fimm mánuði ársins,“ sagði Loftur Ágústsson, markaðsstjóri B&L. „Við erum reyndar ekki búin að gleyma árinu í fyrra þegar salan fór vel af stað en svo kom afturkippur sem við vorum að súpa seyðið af fram eftir öllu ári. Það er okkar von að salan komist í eðlilegt horf og sú endurnýjunarþörf sem er til staðar skili sér með jöfnum og eðlilegum hætti enda er það hollast fyrir bílafyrirtækin og um leið þjóðfélagið.“
Eins og við er að búast er mest spurt um sparneytna millistærðarbíla, að sögn Lofts, og viðskiptavinir kynna sér vel það sem er í boði og reyna að vanda valið. „Við höfum verið svo lánsöm að fá á undanförnum misserum inn nýja bíla sem passa vel við það sem fólk er að leita að og má í því sambandi nefna nýjan Nissan Qashqai, spennandi nýjar gerðir af Renault og nýja i10 bílinn frá Hyundai,“ bætir Loftur við.
jonagnar@mbl.is