Fara í efni

Allir vinna - spurningar og svör

Athuga ber að von er á reglugerð þar sem kveðið er nánar á um endurgreiðslurnar. En þangað til hún hefur verið birt þá birtum við hér svör við þeim spurningum sem hafa fengist frá Skattinum um einstök atriði. Síðan verður uppfærð eftir því sem nýjar upplýsingar berast og einnig ef endanleg reglugerð mun hafa einhver áhrif á einstök svör.

Endurgreiðsluhlutfall?
Endurgreiðsluhlutfall verður 100% af virðisaukaskatti sem greiddur hefur verið af vinnu við bílaviðgerðir, bílaréttingar og bílamálun.

Er lágmark á endurgreiðslunni?
Já, það er eingöngu hægt að sækja um endurgreiðslu ef vinnuliður reiknings (þ.e. fyrir utan varahluti, íhluti og efni) er 25.000 krónur eða meira. Það þýðir að minnsta fjárhæðin sem hægt er að fá endurgreidda er 6.000 krónur (25.000 x 24% = 6.000).

Eru tímamörk á endurgreiðslu?
Þetta gildir um virðisaukaskatt sem greiddur hefur verið af vinnu við bílaviðgerðir sem inntar hafa verið er af hendi á tímabilinu 1. mars til og með 31. desember 2020. Þetta þýðir að svo lengi sem reikningurinn frá fyrirtækinu er dagsettur innan þessara tímamarka þá verður hægt að sækja um endurgreiðslu á honum hvenær sem er á tímabilinu. Þar sem ekki er enn búið að opna fyrir umsóknir hjá Skattinum er því mikilvægt að geyma reikninga og kvittanir svo hægt sé að sækja um þegar það opnar loksins fyrir umsóknir.

Koma inn sér umsóknarblöð inn á „mínar síður“ hjá Skattinum til að geta sótt um endurgreiðslu virðisaukaskatts fyrir fólksbíla?
Já. Það er gert á þjónustusíðu embættisins www.skattur.is þar sem farið er inn með rafrænum skilríkjum. Þar undir „Samskipti“ er að finna „Virðisaukaskattur“ og er smellt á það þar sem opnast nýr gluggi með umsókn „RSK 10.33 Beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna bifreiðar“ en smella þarf á RSK 10.33 og þá opnast umsóknarferlið. Vert er að benda á að nauðsynlegt er að hengja skannaðan reikning, sem grundvallar beiðni, við umsókn. Ekki er hægt að klára umsóknarferlið nema reikningur fylgi.

Get ég fengið endurgreiðslu á varahlutum?
Eingöngu er hægt að fá endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnulið reikninga en ekki af varahlutum og öðrum íhlutum sem notaðir eru í viðgerðina.

Hvaða skilyrði þurfa fyrirtæki/verkstæði að uppfylla svo hægt sé að sækja um endurgreiðslu byggt á útgefnum reikningi frá þeim?
Fyrirtækin þurfa að vera skráð á virðisaukaskattsskrá og hafa tilskilin leyfi fyrir þeim verkum sem þau inna af hendi. Lista yfir fyrirtæki innan Bílgreinasambandsins er að finna HÉR, en ganga má að því vísu að öll þau fyrirtæki uppfylli þau skilyrði sem þarf.

Þarf að sundurgreina á sölureikningi upphæð vsk af annars vegar vinnulið og hins vegar efni?
Það þarf alltaf að sundurliða reikninginn í vinnulið annars vegar og varahluti/íhluti annars vegar, svo reikna megi út vsk.upphæð vinnuliðarins sérstaklega. Ástæðan er sú að einungis fæst endurgreiðsla virðisaukaskatts af vinnulið en ekki af því efni eða íhlutum sem notað er í viðgerð/viðhald fólksbílsins.

Þarf að gera tvo reikninga fyrir sama verkið, þ.e. einn fyrir varahluti og slíkt og annan fyrir vinnuna við verkið svo hægt sé að fá endurgreiðslu, eða er nóg að gera bara einn reikning?
Það er í góðu lagi og í raun æskilegt að gerður sé einn reikningur fyrir viðgerðinni í heild sinni svo lengi sem reikningurinn sé sundurliðaður þannig að skýrt komi fram hvaða upphæð tilheyri varahlutum, íhlutum og öðru og hvaða upphæð tilheyrir vinnunni við verkið. Með því er hægt að reikna út virðisaukaskattinn af vinnuliðnum og nota sem grunn að endurgreiðslunni.

Hvað er átt við með fólksbíl, nær þetta yfir jepplinga og jeppa líka?
Já, heimildin nær yfir alla venjulega heimilisbíla allt frá smábílum til jeppa upp að 3,5 tonnum að þyngd. Bíllinn þarf að vera skráður í eigu/umráðum þess einstaklings sem óskar eftir endurgreiðslunni og má ekki vera notaður í atvinnuskyni. Hafa ber í huga að endurgreiðsla á einungis við um ökutæki sem eru skráð sem fólksbílar, þ.e. ekki pallbílar eða sendibílar sem eru skráðir í flokkinn sendibifreið (N1). 

Nær þessi heimild yfir húsbíla líka?
Það er skilningur BGS að svo sé já, enda eru all flestir húsbílar skráðir í ökutækjaflokkinn "fólksbifreiðar". 

Er leyfilegt að safna saman í reikning á sömu bifreið til að ná 25.000 kr. lágmarki vinnuliðs í þeim tilvikum þar sem tvö verkstæði þurfa að koma að viðgerðinni?
Ef tvö eða fleiri verkstæði koma að viðgerðinni og hvert verkstæði fyrir sig gefur út reikning vegna síns hluta, þá þarf hver einstakur reikningur að ná lágmarkinu til að hægt sé að sækja um endurgreiðslu byggt á honum. Sem dæmi, ef tvö verkstæði koma að viðgerð og gefa út reikninga en aðeins reikningurinn frá öðru þeirra nær tilskyldri lágmarksfjárhæð þá er eingöngu hægt að sækja um endurgreiðslu byggt á þeim reikningi en ekki hinum. Það sama gildir ef hvorugur reikningurinn nær tilskyldu lágmarki, þ.e. þá er ekki hægt að sækja um endurgreiðslu yfir höfuð.

Ef ég er með tvær viðgerðir og vinnuliðurinn fyrir aðra er yfir 25.000 með virðisaukaskatti en hin er undir því marki, er þá einungis hægt að fá endurgreiðslu fyrir aðra viðgerðina?
Já, samanber svarið hér að ofan þá er eingöngu hægt að sækja um endurgreiðslu vegna þess reiknings sem nær lágmarkinu en ekki hins.

Get ég fengið endurgreiðslu vegna vinnu við rúðuskipti?
Ef kostnaðurinn við rúðuskiptin lendir algjörlega á einstaklingi þá er hægt að sækja um endurgreiðslu vegna þess svo lengi sem vinnuliður reiknings sé hærri en 25.000 krónur. Ef rúðuskiptin fara hinsvegar í gegnum tryggingarnar og einstaklingur greiðir einingis sjálfsáhættuna þá er ekki hægt að sækja um endurgreiðslu.

Hvernig er það með eigináhættu/sjálfsáhættu af kaskótyggingum þar sem ég sem neytandi greiði hluta af viðgerðarkostnaði, get ég sótt um endurgreiðslu á þeim hluta (sjálfsáhættunni) sem ég greiði?
Einstaklingar sem greiða sjálfsáhættu vegna tjóns, en tryggingafélag greiðir fyrir tjónaviðgerðina að öðru leyti, getur að öllum líkindum ekki sótt um endurgreiðslu af sjálfsáhættunni - enda hefur neytandi þá ekki í höndunum reikning með virðisaukaskatti þar sem vinnuliður er sérstaklega tilgreindur. 

Get ég sótt um endurgreiðslu vegna vinnu við ásettningu dráttabeislis eða breytingar á ökutæki mínu (t.d. jeppabreytingar)?
Eins og stendur þá er túlkun Skattsins á þann veg að breytingar á bílum, þar með talið ásetning dráttarbeislis og þess háttar, falli ekki undir heimildina til endurgreiðslu. Bílgreinasambandið hyggst þó láta reyna frekar á þetta og mun uppfæra hér upplýsingarnar þegar þetta liggur endanlega fyrir.

Flokkast það að dufthúða/pólýhúða felgur undir þessa endurgreiðslu á virðisauka?
Já, endurgreiðslan nær til bílamálunar, hvort sem bifreiðin er máluð í heild sinni eða eingöngu tilteknir hlutar hennar. Þó gildir það sama um lágmarksfjárhæð vinnuliðar 25.000 krónur að sjálfsögðu.

Fæst endurgreiðsla af bílaþrifum, mössun og/eða ceramic húðun á lakki?
Vinna við bílaþrif og annað sem fellur undir reglulega umhirðu bifreiðar fellur utan endurgreiðsluheimildarinnar. Það á m.a. við um mössun og ceramic húðun sem verður ekki talið til viðgerða heldur reglubundins viðhalds.

Fæst endurgreiðsla vegna þjónustuskoðana hjá bílaumboðum eða hjá þjónustuaðilum þeirra?
Þjónustuskoðanir til að viðhalda ábyrgð eða sinna reglulegu viðhaldi bifreiðar myndar ekki grunn til endurgreiðslu. Önnur viðgerðarþjónusta bílaumboða (eða hjá þjónustuaðilum þeirra), svo lengi sem fjárhæð vinnuliðar reiknings er 25.000 krónur eða hærri, myndar þó grunn til endurgreiðslu eins og hjá öðrum verkstæðum.