Fara í efni

Um úrskurðarnefnd

Úrskurðarnefnd bílgreina úrskurðar í ágreiningsmálum milli neytenda og seljenda um hverskonar kvartanir frá neytendum, bæði innanlands og yfir landamæri, vegna kaupa á vöru og/eða þjónustu af fyrirtækjum innan Bílgreinasambandsins. 

Markmið nefndar sem þessarar er að tryggja neytendum aðgang að faglegri málsmeðferð við lausn deilumála utan dómstóla. Með því að gerast félagsaðili að Bílgreinasambandinu hlýst samhliða aðild að úrskurðarnefnd bílgreina.

Bílgreinasambandið og Félag íslenskra bifreiðaeigenda hafa gert með sér samkomulag samkvæmt lögum nr. 81/2019 um úrskurðaraðila á sviði neytendamála um að starfrækja sameiginlega úrskurðarnefnd vegna ágreinings frá neytendum vegna kaupa á vörum og þjónustu af fyrirtækjum sem tengt er ökutækjum.

Athygli er vakin á því að áður en neytandi getur leitað til nefndarinnar skal hann hafa lagt kröfur sínar fyrir hlutaðeigandi fyrirtæki. Málskotsaðili getur á hvaða stigi dregið mál til baka, en fær þá ekki málskotsgjald endurgreitt. Málskotsgjald er heldur ekki endurgreitt í þeim tilvikum sem máli er vísað frá nefndinni á grundvelli 4. gr. samþykkta eða samkvæmt 1. mgr. 14.gr. laga um úrskurðaraðila á sviði neytendamála. Mál er ekki tekið fyrir nema málskotsgjald sé greitt og kvittun fyrir greiðslu fylgi málinu.

Nefndarmenn úrskurðarnefndar bílgreina eru þrír og eru skipaðir af ráðherra atvinnuvega- og nýsköpunar til þriggja ára í senn. Formaður nefndarinnar er skipaður af ráðherra og eru aðrir nefndarmenn skipaðir af ráðherra eftir tilnefningu Bílgreinasambandsins og Félag íslenskra bifreiðaeigenda. Skrifstofa Félags íslenskra bifreiðaeigenda annast dagleg störf nefndarinnar.

Fylla þarf út sérstakt eyðublað til að koma málum til nefndarinnar sem hægt er að nálgast á þessari síðu.

 

Viðurkenndir úrskurðaraðilar af ráðherra

Samkvæmt 8. gr. laga um úrskurðaraðila á sviði neytendamála getur ráðherra viðurkennt úrskurðaraðila samkvæmt umsókn uppfylli hann ákvæði laga þessara og reglna settra samkvæmt þeim. Ráðherra heldur skrá yfir viðurkennda úrskurðaraðila. Skráin og uppfærslur hennar skulu jafnóðum tilynntar til fastanefndar EFTA. 

Viðurkenndir úrskurðaraðilar