Fara í efni

Samþykktir úrskurðarnefndar

Gildissvið

1. gr.

Úrskurðarnefndin tekur til meðferðar og úrskurðar, eftir því sem reglur þessar gera ráð fyrir, hvers konar kvartanir frá neytendum, bæði innanlands og yfir landamæri, vegna kaupa á vöru og/eða þjónustu af fyrirtækjum innan Bílgreinasambandsins. Fyrirtækin skuldbinda sig til að fylgja ákvörðun nefndarinnar og greiða hugsanlegar bætur innan fjögurra vikna frá úrskurðardegi.

Hafi úrskurður nefndarinnar veruleg fjárhagsleg útgjöld í för með sér fyrir viðkomandi fyrirtæki eða hafi úrskurðurinn fordæmisgildi er fyrirtækinu heimilt innan fjögurra vikna frá úrskurðardegi, að tilkynna nefndinni og viðkomandi aðila, með sannanlegum hætti að það sætti sig ekki við úrskurðinn og muni ekki greiða bætur nema að undangengum dómi.

Kærendur geta jafnan leitað atbeina dómstóla sætti þeir sig ekki við úrskurð nefndarinnar.

Nefndin tekur einungis við málskoti frá neytendum sem hafa átt í viðskiptum við fyrirtæki sem eru innan Bílgreinasambandsins.

Skipan nefndarinnar

2. gr.

Úrskurðarnefndina skipa 3 fulltrúar í hverju máli. Einn er tilnefndur af Bílgreinasambandinu, einn af Félagi íslenskra bifreiðaeigenda og einn af Atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra og skal hann vera formaður nefndarinnar.

Formaður skal hafa lokið fullnaðarnámi í lögfræði með embættis- eða meistaraprófi við lagadeild háskóla sem viðurkenndur er hér á landi samkvæmt lögum um háskóla og búa yfir nauðsynlegri þekkingu og færni á sviði lausnar deilumála neytenda, innan eða utan dómstóla. Nefndarmenn skulu búa yfir nauðsynlegri þekkingu og færni á sviði lausnar deilumála neytenda, innan eða utan dómstóla, sem og almennri þekkingu á lögum.

Fyrir hvern nefndarmanna skulu framangreindir aðilar velja einn eða fleiri varamenn. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti og uppfylla sömu hæfisskilyrði og aðalmenn. Varamaður formanns er formaður í forföllum hans.

Fulltrúar eru valdir til setu í nefndinni í þrjú ár í senn og ekki er hægt að víkja þeim úr starfi án gildrar ástæðu. Nefndarmenn mega ekki fá nein fyrirmæli frá málsaðilum eða fulltrúum þeirra, né fá laun á þann hátt að það tengist niðurstöðu málsmeðferðarinnar. Nefndarmenn skulu sýna óhlutdrægni við meðferð og afgreiðslu mála.

Dagleg störf nefndarinnar annast skrifstofa Félags íslenskra bifreiðaeigenda.

Hæfi nefndarmanna

3. gr.

Nefndarmaður er vanhæfur til meðferðar máls og skal víkja sæti eigi vanhæfisástæður 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við um hann. Nefndarmaður er því vanhæfur ef hann er t.d. aðili að málinu, skyldur í beinan legg eða fyrir hendi eru aðstæður sem eru til þess fallnar að draga óhlutdrægni hans í efa.

Nefndarmanni ber að tilkynna meðnefndarmönnum sínum án tafar, telji hann sig vanhæfan. Nefndarmaður getur jafnframt krafist þess að annar nefndarmaður víki sæti vegna vanhæfis. Komi upp slík krafa úrskurðar formaður um hæfi, víki nefndarmaður ekki sæti af sjálfsdáðum. Sé um mál formanns að ræða þá úrskurðar nefndarmaður Bílgreinasambandsins um hæfi formanns. Nefndarmaður getur sagt sig frá máli á hvaða stigi sem er telji hann sig vanhæfan. Leiki vafi á því hvort nefndarmaður er vanhæfur úrskurðar formaður um hæfi hans. Víki nefndarmaður vegna vanhæfis skal varamaður hans kallaður til. Reynist varamaður einnig vanhæfur skal tilnefningaraðili skipa sérstakan nefndarmann (ad hoc) til að taka sæti hans.

Skilyrði málskots

4. gr.

Mál er aðeins tekið til meðferðar af nefndinni, að neytandinn hafi áður reynt að ná fram rétti sínum gagnvart fyrirtækinu skriflega og greitt málskotsgjald.

Neytandi skal greiða kr. 15.000, - til skrifstofunnar sem er óafturkræft málskotsgjald.
Hlutaðeigandi fyrirtæki skal greiða neytanda málskotsgjaldið í eftirfarandi tilvikum:

a)  Falli mál neytanda að hluta eða öllu leyti í vil.
b)  Falli mál niður með samkomulagi eða sátt aðila.

Málsmeðferð

5. gr.

Málsmeðferð stendur málsaðilum til boða án tillits til þess hvort þeir njóti aðstoðar lögmanns eða annarrar sérfræðiráðgjafar þriðja aðila. Málsaðilum er heimilt að leita sér óháðrar ráðgjafar, láta fulltrúa koma fram fyrir sína hönd eða fá aðstoð þriðja aðila á hvaða stigi málsmeðferðar sem er.

Starfsmaður nefndar tekur við kvörtunum til nefndarinnar, skrifar úrskurðinn, sinnir samskiptum við málsaðila og undirbýr mál til meðferðar.

Kvartanir til nefndarinnar skulu vera skriflegar. Nefndin tekur við kvörtunum og fylgiskjölum rafrænt. Í kvörtun skal skilmerkilega gerð grein fyrir ágreiningi milli aðila. Gera skal skýra kröfu um tiltekna niðurstöðu fyrir nefndinni og skal rökstyðja þær með eins ítarlegum hætti og unnt er.

Málsmeðferð nefndarinnar er skrifleg og málsaðilum kleift að skiptast á upplýsingum með rafrænum aðferðum eða í pósti.

Starfsmaður nefndar sendir hverja kvörtun til umsagnar viðkomandi fyrirtækis sem kvörtunin beinist að ásamt öllum viðeigandi upplýsingum. Skal fyrirtækinu veittir 14 dagar til að svara kvörtuninni, nema samþykkt sé beiðni um lengri frest. Ef svar berst skal það sent neytenda sem getur komið að sínum athugasemdum innan 7 daga, nema samþykkt sé beiðni um lengri frest. Starfsmanni nefndar er heimilt að ákveða að veita aðilum rýmri frest.

Í því skyni að tryggja andmælarétt skal óska oftar eftir athugasemdum aðila ef þörf krefur. Náist ekki samkomulag eða svar berst ekki innan tilskilins tíma tekur nefndin málið til úrskurðar á fyrirliggjandi gögnum. Neytandi getur dregið kvörtun til baka á hvaða stigi máls sem er.

Nefndin skal gefa aðilum kost á að tjá sig um málavexti og leggja fram gögn. Nefndinni er heimilt að óska eftir að málsaðilar komi fyrir nefndina. Jafnframt er nefndinni heimilt að fá sérfræðinga sér til ráðgjafar.

Málsaðilum skal tilkynnt um lok gagnaöflunar. Tjái gagnaðili sig ekki skal málið tekið til meðferðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Frávísun

6. gr.

Nefndinni er heimilt að vísa málum frá þegar svo er ástatt sem segir í 1. mgr. 14. gr. laga um úrskurðaraðila á sviði neytendamála.

Nefndin tekur afstöðu til þess hvort ágreiningur heyrir undir lögsögu hennar. Telji nefndin svo ekki vera er henni heimilt að vísa máli frá. Þegar augljóst er að mál heyrir ekki undir lögsögu nefndarinnar getur starfsmaður hennar vísað máli frá. Að beiðni neytanda skal úrskurðaraðili endurskoða ákvörðun starfsmanns.

Nefndin skal vísa frá kvörtun sem heyrir undir eða er til meðferðar hjá öðrum viðurkenndum eða lögbundnum úrskurðaraðila sem hefur verið skráður og tilkynntur skv. 1. mgr. 12. gr. laga um úrskurðaraðila á sviði neytendamála.

Nefndin skal vísa frá kvörtun sem heyrir undir eða er til meðferðar hjá erlendum úrskurðaraðila sem er á skrá yfir tilkynnta úrskurðaraðila í deilumálum utan dómstóla á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga um úrskurðaraðila á sviði neytendamála.

Nefndin getur á öllum stigum málsmeðferðar ákveðið að vísa máli frá skv. þessari grein.

Frávísun skal rökstudd og send aðilum máls eigi síðar en þremur vikum frá móttöku kvörtunar eða móttöku upplýsinga sem nauðsynlegar eru til að ákveða hvort vísa megi máli frá. Málsaðilum skal leiðbeint um möguleika til að leita réttar síns fyrir dómi, ef við á.

Fundir nefndarinnar

7. gr.

Fundi úrskurðarnefndarinnar skal boða með hæfilegum fyrirvara. Nefndin er ekki úrskurðarhæf nema hún sé fullskipuð. Fundir úrskurðarnefndarinnar skulu haldnir á skrifstofu Félags íslenskra bifreiðaeigenda, en einnig er heimilt að halda fundi rafrænt í heild eða að hluta, svo sem með notkun fjarfundarbúnaðar.

Þeim starfsmönnum Félags íslenskra bifreiðaeigenda og Bílgreinasambandsins sem starfa að verkefnum fyrir úrskurðarnefndina er heimilt að sitja nefndarfundi með málfrelsi og tillögurétti.

Úrlausnir

8. gr.

Afl atkvæða ræður niðurstöðu máls. Sératkvæði skulu birt með úrlausn meirihluta.

Niðurstaða máls skal rökstudd og tilkynnt málsaðilum skriflega eða á varanlegum miðli.

Nú er lausn eða sátt lögð til sem krefst samþykkis málsaðila og skal þá nefndin veita málsaðilum hæfilegan frest til að taka afstöðu til hennar.

Niðurstaða málsmeðferðar skal kynnt aðilum máls innan 90 daga frá þeim degi er öll gögn máls hafa borist. Nú er mál mjög flókið og er þá unnt að framlengja frestinn um 90 daga sé ástæða til með tilkynningu til aðila máls. Í tilkynningu skal greint frá því hve langan tíma áætlað er að taki að leiða deiluna til lykta.

Málsaðilum skal leiðbeint um möguleika til að leita réttar síns fyrir dómi, ef við á.

Endurupptaka máls

9. gr.

Nefndin getur tekið ákvörðun um að mál sem úrskurðað hefur verið í af nefndinni skuli tekið fyrir aftur ef fram koma nýjar upplýsingar, sem ekki var unnt að afla eða koma á framfæri þegar mál var tekið fyrir og eru þess eðlis að hefðu þær legið fyrir við uppkvaðningu úrskurðar gætu þær hafa leitt til annarrar niðurstöðu. Skrifleg beiðni um endurupptöku þarf að berast nefndinni frá aðila máls. Ekki skal innheimt málskotsgjald að nýju við endurupptöku.

Nefndin horfir, eftir því sem við á, til 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við ákvörðun um endurupptöku máls.

Birting upplýsinga, ofl.

10. gr.

Nefndin skal birta úrskurði sína á vefsetri sínu. Nefndinni er heimilt að ákveða að nöfn og heimilisföng seljanda komi fram við birtingu úrskurða. Nöfn og heimilisföng neytenda skulu ekki koma fram við birtingu úrskurða. Um meðferð nefndarinnar á persónuupplýsingum fer eftir lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018.

11. gr.

Nefndin heldur og birtir skrá yfir seljendur sem tilkynnt hafa, eða sýnt hefur verið fram á, að hlíti ekki úrskurðum (flt.) nefndarinnar. Skráin skal birt á vefsetri nefndarinnar og skal innihalda eftirfarandi upplýsingar:

a)  dagsetningu skráningar.
b)  firmanafn og auðkenni seljanda.
c)  heimilisfang og staður seljanda.
d)  tegund vöru og þjónustu sem málið varðar.
e)  stutta lýsingu á ágreiningi aðila og niðurstöðu máls.

12. gr.

Nefndin skal afmá upplýsingar um seljanda úr skránni sem er birt samkvæmt 11. gr. þegar:

a)  tvö ár eru liðin frá birtingu úrskurðar
b)  seljandi fer sannanlega að úrskurði nefndarinnar
c)  dómsmál er höfðað um kröfu málsins
d)  dómsmál sem hefur þýðingu fyrir niðurstöðu nefndarinnar er að vænta í máli annarra aðila.

Nefndinni er óskylt að afmá upplýsingar hafi henni ekki borist upplýsingar frá seljanda um að skilyrði b-d liðar 1. mgr. séu uppfyllt.

Upplýsingagjöf til neytenda

13. gr.

Nefndin skal halda úti vefsetri og skulu þar birtar eftirfarandi upplýsingar á skýran og auð­skiljan­legan hátt:

a)  samskiptaupplýsingar nefndar, þ.m.t. póstfang og tölvupóstfang,
b)  að nefndin sé skráð samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga um úrskurðaraðila á sviði neytendamála nr. 81/2019,
c)  þá einstaklinga sem fara með lausn mála, hvernig staðið er að skipun þeirra og hvað umboð þeirra er til langs tíma,
d)  sérþekkingu, óhlutdrægni og sjálfstæði nefndarmanna og hvort þeir starfi fyrir eða fái þóknun sérstaklega frá seljanda,
e)  aðild nefndar að samstarfsnetum úrskurðaraðila sem greiða fyrir lausn deilumála yfir landamæri, ef við á,
f)  tegundir deilumála sem nefndin er bær til að fjalla um, þ.m.t. hvers konar fjárhæðar­mörk, ef við á,
g)  málsmeðferðarreglur sem gilda um lausn mála og af hvaða ástæðum nefndinni er heimilt að vísa málum frá,
h)  á hvaða tungumálum hægt er að leggja kvartanir fyrir nefndina og hvaða tungumál hægt er að nota í málsmeðferðinni,
i)  hvers konar reglur eru grundvöllur nefndarinnar við lausn mála (t.d. lagaákvæði, sann­girnis­sjónarmið, siðareglur),
j)  forkröfur, ef einhverjar eru, sem málsaðilar gætu þurft að uppfylla áður en hægt er að hefja málsmeðferð, þ.m.t. krafa um að neytandi hafi gert tilraun til að leysa málið beint með seljanda,
k)  hvort málsaðilar geti dregið sig út úr málsmeðferðinni,
l)  kostnað, ef einhver er, sem málsaðilar skulu bera, þ.m.t. hvers konar reglur um niður­fellingu kostnaðar í lok málsmeðferðar,
m)  meðallengd málsmeðferðar,
n)  réttaráhrif úrlausna, þ.m.t. viðurlög við því að fara ekki að þeim ef um er að ræða bindandi úrlausnir, ef við á,
o)  fullnustuhæfi úrlausna, ef við á,
p)  ársskýrslur nefndarinnar,
q)  samþykktir nefndarinnar,
r)  skrá yfir tilkynnta úrskurðaraðila í deilumálum utan dómstóla á Evrópska efnahags­svæðinu.

Upplýsingaskylda

14. gr.

Nefndin skal útbúa ársskýrslu um starfsemi sína á liðnu starfsári sbr. 19. gr. reglugerðar nr. 900/2019 um viðurkenningu frjálsra úrskurðaraðila á sviði neytendamála.

Nefndin skal útbúa skýrslu á tveggja ára fresti sbr. 20. gr. reglugerðar nr. 900/2019 um viðurkenningu frjálsra úrskurðaraðila á sviði neytendamála.

Kostnaður

15. gr.

Kostnað af starfsemi nefndarinnar skal greiða af málskotsgjaldi, því sem um er rætt í 4. gr., og eftir atvikum gjaldi fyrirtækis sem stendur utan Bílgreinasambandsins, sbr. 1. gr. Þá er jafnframt gert ráð fyrir að Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið leggi nefndinni til fjármagn samkvæmt þjónustusamningi við Bílgreinasambandið og Félag íslenskra bifreiðaeigenda.

Annar kostnaður, svo sem þóknun til nefndarmanna, greiðir hver aðili fyrir sig.

Þagnarskylda

16. gr.

Nefndarmenn og starfsmenn nefndarinnar eru bundnir þagnarskyldu. Þeir mega ekki skýra óviðkomandi frá því sem þeir komast að í starfi sínu og leynt á að fara vegna lögmætra almanna- og einkahagsmuna. Sama gildir um sjálfstæða sérfræðinga þegar þeir starfa á vegum nefndarinnar. Þagnarskylda helst þótt látið sé af störfum eða verksamningi ljúki.

Uppsögn

17. gr.

Hver aðili um sig getur sagt samningi þessum upp með 12 mánaða fyrirvara, nema samkomulag um skemmri frest liggi fyrir.

 

Reykjavík, 16.06.2020