Bílasýningin í Frankfurt hefst í næstu viku og stendur frá 10.-22. september, og ber nú yfirskriftina ,,Driving tomorrow". Sýningin er haldin annað hvert ár en fjöldi Íslendinga sækir sýninguna heim hverju sinni og er engin undantekning á því nú. Fulltrúi Bílgreinasambandsins verður á staðnum til að kynna sér helstu nýjungar, hitta framleiðendur og fræðast um hver stefna markaðarins er næstu árin.

Internatonale Automobile Ausstellung, eða IAA, er ein stærsta sýning á farartækjum í heimi en hún skiptist á að sýna fólksbíla í Frankfurt annað hvert ár og svo atvinnubíla í Hannover annað hvert ár á móti. Sögu sýningarinnar má rekja allt aftur til ársins 1897, þá með 8 bíla til sýningar á hóteli í Berlín, og hefur hún verið haldin nánast óslitið síðan þá - þó með einhverjum hléum t.d. í kringum heimsstyrjaldirnar tvær. Í dag koma hátt í 1000 sýnendur til að kynna sína framleiðslu, eða allt frá bílaframleiðendum, aukahlutaframleiðendum, dekkjaframleiðendum og mörgum öðrum.

Sýningin í Frankfurt hefur ætíð verið vel sótt og má búast við að um 900.000 gestir leggi leið sína til sýningarhallarinnar í Frankfurt til að sjá það helsta sem er að gerast í dag - en miðað við yfirskrift sýningarinnar verður einnig mikið að sjá og heyra varðandi hvert bílaframleiðsla stefnir á næstu árum og áratugum, eða >>Driving tomorrow.