Kópavogsbær hefur fest kaup á þremur Kia Soul EV rafbílum sem verða notaðir sem þjónustubílar fyrir Bæjarskrifstofur Kópavogs.

Tveir bílanna hafa nú þegar verið afhentir og tók Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, við bíllyklunum fyrir hönd bæjarins. Með haustinu fær Kópavogsbær síðan þriðja Kia Soul EV rafbílinn og verður sá einn af fyrstu uppfærðu KIA Soul með 452 km drægni samkvæmt WLTP staðli.

,,Við erum afar ánægð að Kópavogsbær er komið með Kia Soul EV rafbíla í notkun hjá sér. Kópavogsbæ mun koma til með að nota þessa bíla sem þjónustubíla hjá sér og með því að fjárfesta í rafbílum vill bærinn vera ábyrgur gagnvart umhverfinu. Það er komin góð reynsla á Kia Soul EV og bíllinn hefur komið mjög vel út. Bíllinn hefur engan útblástur er hlaðinn aukabúnaði, rúmgóður og með sjö ára ábyrgð frá framleiðanda," segir Kristmann Freyr Dagsson, sölustjóri flotasölu Kia hjá Bílaumboðinu Öskju.

Starfsmenn Bæjarskrifstofa Kópavogs hafa afnot af nýju Kia Soul EV bílunum til að sinna erindum á vinnutíma. Alls eru 12 bílar í notkun á bæjarskrifstofunum en þetta eru fyrstu rafbílarnir sem bærinn kaupir.