Bílgreinasambandið og KPMG stóðu að ráðstefnu í Hörpu 15.nóvember sl. sem bar heitið  „Áfram veginn“. Umfjöllunarefni ráðstefnunnar voru samgöngur á landi í náinni framtíð. Gríðarlega hröð þróun hefur átt sér stað í bílum og samgöngum á landi á allra síðustu árum og spá menn enn hraðir og stórtækari breytingum hvað það varðar á allra næstu árum. Spurningin er hvort og þá hvenær við verðum tilbúin til að taka við þeirri tækni.

Bílgreinin er að fara í gegnum mjög miklar breytingar – kastljósinu er varpað á nýja tækni, bæði hvað orkugjafa varðar og sjálfvirkni.

Þessi tæknibylting verður svo hröð að taka þarf tillit til hennar núna strax við hönnun samgönguinnviða.

Eigum við að reikna með þessari byltingu í þeirri uppbyggingu sem við stöndum frammi fyrir á Íslandi og láta hana hafa áhrif á val á verkefnum og útfærslu þeirra?

Mun sjálfkeyrandi tækni gera borgarlínu óþarfa, eða er hún líkleg til að auðvelda innreið sjálfkeyrandi tækni?

Eru skattar á eldsneyti heppilegasta leiðin til að fjármagna vegakerfið til hér eftir sem hingað til eða eigum við að innleiða vegtolla?

Ættu sveitafélög að reikna með hraðminnkandi þörf fyrir bílastæði á næstu áratugum í skipulagsvinnu sinni?

Þeir sem komu fram á þessari ráðstefnu og reyndu að varpa ljósi á þessar spurningar voru:

Thomas Tonger - frá Daimler Bus

Lilja G Karlsdóttir framkvæmdastjóri Viaplan sem ræddi fyrirhugaða borgarlínu

Moritz Pawelke - frá KPMG

Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður starfshóps samgönguráðherra um fjármögnun stofnleiða við höfuðborgarsvæðið

Stephan Herbst - frá Toyota.

Svörin við þeim spurningum sem eru hér að ofan eru margþátta og sumum ósvarað. Hinsvegar varpaði þessi ráðstefna ljósi á marga þá þætti sem hafa ber í huga varðandi samgöngur á landi í náinni framtíð, þá bæði varðandi vegamannvirki, og ökutækin. Lítið hefur verið gert hér á landi til að taka við nýrri tækni hvað varðar umferðarmannvirki og er nauðsynlegt fyrir okkur að bregðast við og skoða hvað við getum gert til að bæta þar úr hratt og vel.