Þriðja kynslóð Mazda 6 kom á markað fyrir um ári síðan en bílablaðamönnum Morgunblaðsins hefur hingað til láðst að prófa þennan athyglisverða bíl í alvöru reynsluakstri.

Hér með er bætt úr því með reynsluakstri á nýjum Mazda 6 Station sem er í grunninn sami bíllinn þótt hann sé 50 mm styttri en stallbakurinn. Hann er líka töluvert léttari en kynslóðin á undan honum eða allt að 152 kíló og það finnst vel í akstri bílsins.

Stór á velli

Það eru flestir sammála þegar kemur að þessum bíl í fegurðarsamkeppni, hann er vel formaður og eftirtektarverður fyrir sína flæðandi KODO hönnun. Hann er langur enda slær hann næstum E-línu Mercedes-Benz út í lengd í stallbaksútgáfu, bíl úr næsta stærðarflokki fyrir ofan.
Hjólhaf langbaksins er líka talsvert minna en stallbaksins, og munar þar 80 mm sem er þónokkuð. Ekki er þó að finna það sem farþegi að það hafi haft einhver slæm áhrif á bílinn í umgengni. Hurðir eru stórar og gott að setjast inn í bílinn. Það er helst að það vanti aðeins meira pláss fyrir höfuð þegar stigið er út úr bílnum. Jepplingar eru oft lofaðir fyrir þá staðreynd hversu þægilegt er að setjast inn í þá fyrir okkur fullorðna fólkið. Þá vill stundum gleymast hversu örðugt er fyrir börnin að komast inn og út úr þeim í samanburði við bíla eins og þennan. Hafði krakkaherinn meira að segja orð á því hversu þægilegt væri að skríða upp í þennan flotta bíl eins og þau orðuðu það. Eitt var þó óþægilegt þegar kom að því að koma börnunum fyrir en Isofix festingar í aftursætum eru á frekar óþægilegum stað, ofar en venjan er.

Rúmgóður og þægilegur

Að innan er lúxusinn í fyrirrúmi og ökumaður verður þess fljótt áskynja að þetta er vel búinn bíll, bæði í búnaði og efnisvali. Fyrir miðju er stór upplýsingaskjár sem hægt er að stjórna með flýtihnöppum milli sæta eða með snertingu á skjáinn. Innbyggt í skjáinn er leiðsögukerfi, sem reyndar er ótengt hér á landi, stjórnun á hljómtækjum og blátannarbúnaður fyrir síma. Reyndar var símabúnaðurinn að stríða undirrituðum aðeins, náði stundum ekki sambandi við síma ökumanns og vildi að hann tengdi sig í hvert skipti sem sest var inn í bílinn. Ekki var þó hægt að kvarta yfir þægilegum og rúmgóðum sætum bílsins. Meira að segja má segja að fari þokkalega um þrjá fullorðna í aftursætum. Allavega fór vel um þrjú börn, þar af tvö í stærri gerðinni af barnabílstólum. Eins er farangursrýmið rúmgott og aðgengilegt. Gólfið er flatt svo að auðvelt er að renna inn í bílinn stórum töskum og þess háttar. Undir gólfinu eru síðan hólf fyrir smærri hluti. Reyndar vantar aðeins upp á hliðarhólfin í framsætum bílsins, sem eru aðeins í flöskustærð og leyfa ekki að maður leggi frá sér stærri hluti eins og tímarit eða þess háttar. Útsýni aftur gæti verið betra en góður blindpunktskynjari bætir þar úr.
Hljóðlátur og svarar vel
Í akstri virkar bíllinn öruggur og er fljótur til svara þar sem máli skiptir eins og í stýri og inngjöf. Hann liggur vel í beygjum en leggst þó aðeins á hornin ef tekið er snöggt á honum enda stór bíll hér á ferðinni. Bremsurnar virka vel en mættu vera aðeins næmari en það getur verið vegna bremsukerfisins sem í bílnum er. Það er i-ELOOP kerfið sem er nýjung hjá Mazda en þegar bíllinn hægir á sér býr rafall til allt að 25 volt sem eru geymd í þétti í allt að eina mínútu. Þessi orka sem er geymd svona dugar venjulega til að nýta ljósabúnað, loftkælingu, hljómtæki og önnur orkufrek rafmagnstæki í akstri. Þetta sparar eldsneyti og hefur til dæmis verið notað með góðum árangri í Formúlu 1. Vélin er snögg að taka við sér og skilar góðu togi en er um leið hljóðlát og þýð.
Minnkar þjöppuna og um leið eyðsluna

Nýja dísilvélin í Mazda 6 er kapítuli út af fyrir sig og vel þess virði að fjalla aðeins um hana. Það hefur verið erfiðleikum bundið að fá dísilvélar til að minnka mengun með öðrum aðferðum en að bæta við dýrum mengunarbúnaði. Í Skyactive-D er farin ný leið sem var að minnka þjöppu vélarinnar en bæta við hana tveimur forjöppum. Kerfið virkar þannig að lítil forþjappa sér um að bæta togið á lágsnúningi og stærri forþjappa eykur aflið á hásnúningi. Notast var við léttmálma í smíði vélarinar eins og hægt var og hún létt um 25 kíló. Til að minnka mengun dísilvéla reyna hreinustu dísilvélarnar að seinka kveikjunni þar til að stimpillinn er að byrja niðurleið sína, en það minnkar um leið afl vélarinnar. Mazda fór þá leið að bæta innspýtinguna og endurhannaði útblástursventlana svo að hægt var að lækka þjöppu vélarinnar úr 16,3:1 í 14,0:1. Við að lækka þjöppuna minnkar magn nitursambanda og smáagna nóg til að standast ströngustu mengunarkröfur samtímans. Fyrir vikið þarf ekki lengur að notast við viðhaldsfrekan mengunarbúnað sem aftur léttir bílinn.

Bestu kaupin í flokknum

Grunnverð Mazda 6 langbaksins er 4.490.000 kr. en dísilútgáfa með sjálfskiptingu er á 5.290.000 kr sem er ansi gott verð fyrir jafn vel búinn bíl og Mazda 6 er miðað við samkeppnina. Helsti keppinauturinn er án efa Honda Accord en Tourer útgáfan með sömu stærð af dísilvél kostar 6.390.000 kr sjálfskiptur og þá ekki alveg eins vel búinn. Eins munar 400.000 kr á grunnverði bílanna sem er eftirtektarverður munur. Það sama er uppi á teningnum hjá Toyota þar sem grunnverð dísilbílsins í Wagon útfærslu kostar 5.170.000 kr og sjálfskiptur með 2,2 lítra dísilvélinni er hann á hvorki meira né minna en 7.150.000 kr, næstum tveimur milljónum fyrir ofan sambærilega Mözduna. Mazda 6 Station 2,5 sjálfskiptur með Optimum pakka kostar aðeins 5.790.000 kr og er þá hlaðinn aukabúnaði. Óhætt er að segja að miðað við þennan samanburð verður Mazda 6 Station bestu kaupin í flokknum segir í frétt á mbl.is

njall@mbl.is