Kia GT4 Stinger hugmyndabíllinn verður frumsýndur á bílasýningunni í Detroit í næstu viku. Undir lágri og formmótaðri vélarhlífinni er að finna aflmeiri útfærslu af hinni margreyndu, fjögurra strokka, 2ja lítra vél Kia sem að þessu sinni skilar hvorki meira né minna en 315 hestöflum.

Með þessari aflmiklu vél er bíllinn með sex gíra beinskiptingu sem skilar öllu aflinu til afturhjólanna. Til að aflið fari ekki til spillis er bíllinn á 275/35R20 Pirelli P-Zero performance hjólbörðum að aftan og 235/35R20 Pirelli P-Zeros að framan. Bíllinn er á 20 tommu álfelgum með miðjubolta. Felgurnar eru með koltrefjainnskotum sem draga enn frekar úr þyngd þeirra og auka styrk.

Við þessi stórvöxnu hjól á GT4 eru tveggja laga Brembo Gran Tourismo Custom gegnumboraðar bremsudiskar með fjögurra stimpla  bremsuklemmu. GT4 Stinger verður sýndur í „Ignition Yellow“ lit og í takt við sportlegt útlitið kemur hann á sérhönnuðum undirvagni með sjálfstæðri fjöðrun.